Thursday, March 10, 2011

Koh Tao


Já sjælir Íslendingar nær og fjær.  Ætli þetta sé ekki síðasta bloggið mitt hér frá Asíunni.  Þannig er mál með vexti að sjálf fer ég  heim til Íslands á næstu dögum en systkinin eru svo heppin að eiga mánuð í viðbót hér um slóðir.  Þau tóku sig til um daginn og breyttu flugunum og framlengdu dvölina, mjög skiljanlegt allt saman en því miður hef ég sjálf ekki tök á því að gera slíkt hið sama.

Eftir 12 tíma lestarferð lentum við í Bangkok í bítið.  Þarna vorum við komin aftur til Bangkok, næstum því 2 mánuðum eftir að við lentum þar í byrjun janúar - þá algerlega blaut á bakvið eyrun en nú full ferðalangavisku!  Á þessum 2 mánuðum höfðum við sankað að okkur allskonar drasli þannig að við héldum á hótelið sem við höfðum gist á fyrstu dagana en við áttum pantaða gistingu þar dagana áður en við héldum heim enda flogið til og frá Bangkok.  Á hótelinu ætluðum við að fá að geyma ýmislegt dót sem myndi ekki nýtast okkur síðustu vikurnar á ferðalaginu sem við ætluðum einmitt að eyða í ljúfa lífinu á tælensku eyjunum.  Það var margt og mikið sem hvarf úr bakpokunum þennan morgun ofan í stórgóðan svartan ruslapoka til geymslu.  Má nefna sandala, málverk, of efnismikil föt, bækur og margt fleira.  Það er því skemmst frá því að segja að bakpokarnir okkar voru skyndilega orðnir mjög léttir og fyrirferðarlitlir:)

Þá fórum við og athuguðum með jakkafötin sem Pálmi hafði látið sníða á sig í Bangkok í fyrra skiptið.  Þau litu mjög vel út og smellpössuðu en skyrturnar þurfti aðeins að þrengja um miðjuna.  Þetta kom mannskapnum mjög mikið á óvart enda er helsta hitamálið hjá okkur hvað Pálmi sé búinn að bæta á sig á ferðalaginu!

Við eyddum svo deginum í góðu yfirlæti á kaffihúsum og veitingastöðum í nággrenni Khao San Road sem er helsta túristasvæðið í Bangkok.  Við mættum svo í rútu um kvöldmatarleytið sem átti að ferja okkur suður á bóginn, til hafnar í bæ sem heitir Chumphon, en þaðan myndum við sigla til lítillar eyju sem heitir Koh Tao.  Við vorum komin til Chumphon um kl 5 um morguninn og eyddum þar á bryggjunni 2 tímum í að bíða eftir bátnum sem ferjaði okkur yfir til Koh Tao klukkan 7 um morguninn á um 2 tímum.

Smá úldnar að bíða eftir bátnum, Gígja sofandi eins og fyrri ferðina og sjálf að skrifa blogg


Eyjan Koh Tao er köfunarmekka Tælands og samkvæmt áreiðanlegum heimildum einn besti staðurinn í heiminum til að læra að kafa.  Við trippararnir komum okkur því vel fyrir á köfunar-resort Phoenix Divers þar sem við fengum fínasta bungalow frítt með köfunarréttindunum, sem við höfðum semsagt ákveðið að taka.  Námskeiðið byrjaði strax sama dag með smá fundi og vídjó.  Við fengum bækur og svo var okkur sett fyrir heimavinna! Það var þá aldrei! Trippararnir ráku upp stór augu (og nef í sumra tilviki)!  Áttum við að læra heima?  Það kom skemmtilega á óvart en við skunduðum auðvitað upp í bungalow eftir kvöldmatinn, tókum upp bækur og störtuðum okkar eigin study-group í anda vina okkar í Community.  (Fyrir þá sem málið varðar:  Pálmi var Senior Chang, ég Pierce og Gígja Abed.)

Study-group inni í flotta bungalowinu :)


Daginn eftir var svo bókleg kennsla um morguninn.  Við lærðum allt um köfunarútbúnaðinn og fleira því eftir hádegi átti að vera fyrsta verklega æfingin í sundlaug staðarins.  Eftir góðan hádegismat mættum við vel græjuð í skólann og fengum þar blautbúning, sundfit, grímu, þyndarbelti, BC-vesti sem myndi sennilega útleggjast flotvesti eða eitthvað slíkt á íslensku, súrefnistank og lunga.  Við lærðum allt um hvernig ætti að tengja búnaðinn, græjuðum okkur svo upp og skutluðum okkur niður á 3 metra dýpi í sundlauginni þar sem við gerðum ýmsar æfingar næstu 40 mínúturnar.  Við lærðum hvernig við ættum að hreinsa vatn út úr grímunni neðansjávar, hvernig við ættum að bera okkur að í súrefnisleysi, ef við misstum út úr okkur lungað, sleppa þyngdarbeltinu og ýmislegt fleira.  Auðvitað þarf ekki að tíunda hvað víkingarnir stóðu sig vel og leystu allar æfingar með mestu prýði!  Enn og aftur landi og þjóð til sóma!!! (Ok, smá ýkt kannsi...við vorum semsagt flott:)

Klæða sig í blautbúninga í fyrsta skipti.  Í forgrunni má sjá búnaðinn.


Um kvöldið tók Guðný Gígja þá ákvörðun að halda ekki áfram á köfunarnámskeiðinu.  Námskeiðið er mjög dýrt fyrir trippara á budgeti, hátt í 40 þúsund íslenskar krónur, en þess að auki hafði henni ekki liðið nægilega vel í sundlauginni um daginn til þess að skella sér í sjóinn.  Allir tóku vel í þessa ákvörðun og fengum við grænt ljós á að hún gisti áfram með okkur í bungalowinu þó það væru aðeins ég og Pálmi á námskeiðinu.

Þvílík köfun - þvílíkt dýpi - þvílíkir hæfileikar!

Við skutluðumst svo út að borða og kynntum okkur svo menningarlífið á eyjunni.  Undirrituð ákvað að skella sér snemma heim til að undirbúa sig fyrir sína fyrstu köfun daginn eftir.  Einnig beið heill haugur af heimavinnu :) Guðný Gígja tók sig til og sendi hinni margrómuðu Guggu frænku sms þess efnis að allt væri í lagi, þau væri á barnum ,,okkar" og kæmu fljótlega heim.  Eflaust hefur Gugga verið undrandi á þessum skilaboðum sem áttu auðvitað að enda í símanum mínum.  Gugga hefur greinilega verið ofarlega í huga Guðnýjar Gígju þetta kvöld þegar hún stimplaði inn númerið en ég efast ekki um að Gugga hafi verið glöð að heyra af góðu gengi frænku sinnar á pöbbaröltinu!

Ein sátt með blóm á mango-sjeikinum sínum :)

Þessi gaur með Phoenix Diver merkið í bakgrunni



Morguninn eftir skelltum við okkur Pálmi aftur í bóklega kennslu í köfunarskólanum fram að hádegi.  Í þetta skiptið lærðum við allt um hina ýmsu köfunarsjúkdóma og hættur og fleira í þeim dúr.  Við tókum einnig bóklegt próf og stóðum okkur með prýði þó ég segi sjálf frá.  Eftir hádegi skelltum við okkur svo út á sjó í okkar fyrstu kafanir sem var vægast sagt æðislegt!  Við fórum tvisvar niður á 12 metra, í um 40 mínútur í hvort skiptið, og sáum æðislega kóralla, ótrúlegar fiskategundir og fleiri sjávardýr!  Þetta var án allra ýkja líkast því að vera kominn inn í bíómyndina Finding Nemo!  Þvílík litadýrð :)  Við gerðum ýmsar æfingar á botninum og fylgdum svo kennaranum okkar, honum Matee, að skoða undirdjúpin.  Við Pálmi Snær vorum svokallað ,,buddy-team" sem þýddi að við áttum alltaf að vita af hvoru öðru og pössuðum við vel upp á hvort annað.  Pálma þótti víst auðvelt að hafa augun á mér þar sem ég var víst hvítasta manneskjan á svæðinu en sjálf átti ég auðvelt með að finna hann enda var hann eini karlmaðurinn með gosbrunn í hárinu! :)  (Fyrir þá sem furða sig á því hvað gosbrunnur sé þá er það eins og tagl sem stendur beint upp úr höfðinu.)

Bjútífúl Buddy-team að gera sig klár!


Marlon frá Kanada, Matee köfunarkennari og Pálmi ræða málin fyrir eina köfunina.  Hér á þaki bátsins sem sigldi með okkur að köfunarstöðunum.


Eftir frábæran dag neðansjávar hittum við Guðnýju Gígju aftur í sundlauginni okkar og eyddum síðdeginu þar.  Hún hafði sofið til 11, fengið sér indælan morgunverð, makað á sig sólavörn og legið á sundlaugarbakkanum, farið svo að athuga með Visa-run og kíkt á netkaffi.  Um kvöldið gerðust svo undur og stórmerki þar sem við hittum ÍSLENDINGA á götunni.  Þetta var par úr Reykjavík sem komið var til Koh Tao til þess að gerast ,,dive-masters" sem er um mánaðar löng þjálfun.  Þau gátu frætt okkur um hin ýmsu mál varðandi eyjuna og köfun.  En við flippararnir héldum auðvitað snemma í rúmið enda er köfun álag á líkamann og gengur ekki að vera úti allar nætur eins og óþekkir krakkar.  Morguninn eftir vöknuðum við Pálmi Snær klukkan 6 til að fara að kafa.  Þetta var síðasti dagurinn okkar á námskeiðinu og áttum við að fara niður á 18 metra dýpi þennan dag sem er einmitt mesta dýpi sem fólk með ,,open-water diver" réttindi eins og við má fara niður á.

Þessi dagur var jafnvel enn betri en sá fyrri en við fórum á 2 nýja köfunarstaði.  Þennan dag voru kvikmyndatökumenn með okkur til þess að festa á filmu óbeisluðu íslensku fegurðina.  Við fórum tvisvar niður, á 18 metra í hvort skiptið og í tæpar 40 mínútur.  Þennan dag kynntumst við aðeins betur fólkinu í hópnum okkar og auðvitað mæltum við okkur mót við þau um kvöldið til þess að fagna nýtilkomnum köfunarréttindum.  Þegar við komu aftur til baka á fast land settumst við hópurinn niður í síðasta skipti með kennaranum og logguðum kafanirnar okkar í logbækurnar okkar.  Hrikalega töff.  Síðan fengum við að vita að við gætum nú kallað okkur með stolti ,,kafara"!

Svona var gott veður, fallegt umhverfi og alveg frábærir súrefniskútar! Gerist ekki betra :)

Víkinga-kafararnir útskrifaðir með Matee kennaranum okkar:)

Guðný Gígja hafði átt góðan dag í að liggja á sundlaugarbakkanum að lesa og hlusta á tónlist..og auðvitað TANA;)... en slóst svo í för með okkur og hópnum þar sem við ætluðum að fara út að borða saman.  Á leiðinni á veitingastaðinn gerðust svo enn og aftur undur og stórmerki þar sem við hittum FLEIRI ÍSLENDINGA!  Þetta reyndust vera 4 ungar dömur frá Egilstöðum og Fáskrúðsfirði sem sjálfar voru að læra köfun í öðrum skóla á eyjunni.  Við ákváðum að hittast öll kvöldið eftir og halda eitt gott ÍSLENDINGAPARTÝ.

Því miður týndum við köfunarhópnum meðan við stóðum á snakki við íslensku stelpurnar svo við enduðum á því að borða ein á ítölskum veitingastað þar sem Guðný Gígja fékk að eigin sögn besta hálfmána í sögu hálfmánanna!  Undur og stórmerki enn og aftur.

Við hittum á köfunarliðið seinna um kvöldið og áttum með þeim mjög skemmtilegt kvöld sem einkenndist af slími og greftri.  ....djók!

Undirrituð með drengnum sem var alveg eins og Bjarki Jóns/Brad Pitt nema hvað - líkist hvorugum á þessari mynd.  (Án djóks samt, hann var alveg eins og Bjarki Jóns, okkur þótti þetta nánast óþægilegt!)


Alveg gasssaleg stemming á strandbörunum!  

Daginn eftir leigði Pálmi sér vespu með strák frá Kanada sem heitir Marlon og var með okkur á námskeiðinu.  Ég held annars að við höfum sérstakt lag á að laða að okkur yndislega Kanadabúa því við erum búin að kynnast svo mörgum frá Kanada og allt er þetta hið frábærasta fólk!  Hæstir á lista eru Kieran vinur okkar úr GAP hópnum, Amy úr konuhópnum sem við eyddum dögum okkar í Luang Prabang í Laos með og Rose, Papa Peter og Alex sem við fórum með á fílsbak og læknuðu Guðnýju Gígju eftir fallið.

Pálmi Snær og Marlon áður en þeir lögðu af stað í háskaförina miklu til Shark-Bay.

En já, þeir skelltu sér til Shark-Bay sem ég var reyndar búin að fá skýr fyrirmæli um frá Wikipedu-lesnu móður minni að halda mig færri frá, og fóru þar að snorkla og sáu þar nokkra hákarla, jáátsa!!  Á meðan tönuðum við skvísurnar, fórum á internetkaffi og borðuðum góðan mat.  Um kvöldið var svo komið að Íslendingapartiýinu mikla.  Sem betur fer rákumst við óvænt aftur á íslenska parið á götunni svo við gátum boðið þeim líka.  Við hittumst svo öll á bar og fengum okkur nokkra bjóra áður en við skunduðum í 7-11, fjárfestum í nokkrum Chang, og héldum svo partýinu áfram á veröndinni að bungalowinu okkar.  Þar trylltu systkininn lýðinn með hljóðfæraspili sínu og við glöddumst öll yfir að geta sungið saman klassíska íslenska slagara!  Við reyndum eins og við gátum að nota íslenska frasa og máltæki sem enduðu oft að fyndnum útskýringum á ensku fyrir Marlon sem var þarna staddur líka.  Ónefndur aðili fór hamförum þar sem ónefndi aðillinn reyndi að útskýra ,,nú falla öll vötn til Dýrafjarðar" fyrir Marlon með frösum eins og ,,You know Gisli Sour-son?" og ,,Now all waters fall to Animalfjord!"  Ég mun þó ekkert upplýsa hver þessi ónefndi aðili var.

Þar sem Íslendingar koma saman - þar er skógur!
Guðný Gígja sátt með nýja tónhlöðu-getthoblasterinn (og ekki spillir liturinn fyrir!)  ...Marlon og Inga frá Egilstöðum auðvitað bara sátt með Changinn sinn, ég meina - hvað annað getur maður verið en sáttur þegar maður er með Chang í hönd, ég segi nú ekki meir!

Þetta kvöld var hið besta kvöld, gaman að tala íslensku við aðra en hvort annað, en líka alveg rosalega gaman að kynnast þessu frábæra fólki :)  Við eyddum auðvitað öllu kvöldinu í að tala um pítusósu, kókómjólk, slátur, Dorrit, skyr, upphitaðar sundlaugar, lopapeysur, músabrúnan hárlit, kreppuna, Jón Gnarr og svo auðvitað Icesave!

Þarna sameina Hafnarfjörður og Egilstaðir krafta sína og úr varð auðvitað yndisleg mynd!   Athugið , hér kom Anna sterk inn með eitt stykki stóran Singha!

Kósý-rokk-slamm stemming hjá flippurunum og félögum :)

Daginn eftir var svo komið að því að kveðja Koh Tao en tælenska landvistarleyfið okkar var alveg að renna út.  Við þurfum því að fara í svokallað og sívinsælt ,,visa-run" sem snýst um það að yfirgefa landið örstutt landleiðina og koma svo aftur inn í landið og fá þá nýjan 15 daga stimpil í vegabréfið.  Styst var fyrir okkur að skutlast til Búrma (ótrúlega töff setning eitthvað... æææ, ég skutlaðist bara til Búrma í dag!)  Við fórum um kvöldið með skipi yfir á meginlandið sem tók um 7 tíma.  Það var ekkert nema dásamlegt þar sem ótrúlegt en satt, á skipinu voru bestu dýnur sem við höfum sofið á í allri ferðinni!  Þegar við komum yfir á meginlandið tók við 2 tíma akstur í minivan yfir á vesturströnd Tælands en eyjan Koh Tao er út fyrir austurströnd Suður-Tælands.  Þá vorum við komin til bæjar sem heitir Ranong en þaðan fórum við með bát yfir til búrmískar (er það orð?) eyju sem ég veit því miður ekki hvað heitir.  Þar var tekið á móti okkur með ýmsum gylliboðum um ódýrar sígarettur og viskí, piff - það var nú ekker fyrir okkur!  Eftir um 5 mínútna dvöl í vegabréfseftirlitinu héldum við aftur í bátinn og höfðum við þá átt hátt í 10 góðar mínútur í því ágæta landi Búrma.  Báturinn fór aftur með okkur til Ranong en þar hoppuðum við upp í rútu sem ferjaði okkkur 7 tíma leið til bæjarins Krabi á vesturströndinni.

Helvískti gott gengi á liðinu í visa-run, hér á leið yfir til Búrma.  Týpískt flipparar eitthvað...

Í Krabi áttum við rólegt kvöld, fórum í nudd og borðuðum góðan mat áður en við lögðumst til svefns í heitasta gistiheimilisherbergi sögunnar!  Morguninn eftir héldum við svo til eyjunnar Koh-Phi-Phi-Don en... meira um það síðar.

Klara kafari kveður að sinni

P.S.  Við eignuðumst lítinn, sætan vin á Koh Tao.  Hann var mjög hrifinn af ,,falang" en það er það sem þeir kalla útlendinga hér um slóðir.  Við fórum í byssó og knúsuðumst mikið :)

No comments:

Post a Comment