Thursday, February 3, 2011

Hanoi og Halong Bay

Tilkynning - tilkynning!  Trippararnir eru nú....FLIPPARARNIR! Já, kæru lesendur, þið sjáið rétt! Við vitum að þetta kemur ykkur gífurlega mikið á óvart en við erum búin að komast að því að við erum flipparar af guðs náð!

Asíutripparar hafa því breyst í VÍKINGA-FLIPPARA! :) Við erum búin að víkinga-flippa í marga daga núna og líf okkar hefur breyst til hins betra, mætti segja að augu okkar hafi opnast fyrir möguleikum lífsins.

En nú gætuð þið kannski hváð og spurt: ,,Hvað er eiginlega VÍKINGA-FLIPP???" Þeirri spurningu er jafn vandsvarað og að anda með nefinu eftir eitt gott þarmablístur frá Pálma því VÍKINGAFLIPP getur verið svo margt og mikið! Við viljum því bara benda ykkur öllum á að ,,stay tuned" hérna á blogginu til að læra, skilja og byrja að lifa eftir lífsspeki VÍKINGAFLIPPARANNA.


Næst á dagskránni var Hanoi, höfuðborg Víetnam!  Við flugum þangað norðureftir seinni partinn 26.janúar.  Flugið var bara aldeilis indælt, ódýrt og hrikalega gott í samanburði við 15 tíma sleeper-rútuna sem við hefðum annars tekið.





Við lendingu í Hanoi urðum við að bregða á það ráð að skutla okkur í sokka í fyrsta skipti í ár og dag!


Við ákváðum að gista í ,,dorms" í Hanoi í fyrsta sinn í ferðinni.  Aðeins að keyra upp bakpokaferðalangastuðulinn :)  Við skelltum okkur því beint á Hanoi Backpackers Hostel sem er í miðjum gamla bænum í borginni.  Það væru engar ýkjur að segja að það hafi verið kalt í Hanoi.  Mig langar til að segja skítkalt en í raun ekkert svo kalt miðað við okkar ástkæra ylhýra en samt sem áður kalt miðað við enga kyndingu í húsunum og engin kuldaföt!  Við brugðum þess vegna bara á það ráð að klæða okkur í öll fötin sem við vorum með í bakpokanum, svona nánast :)  Þetta fyrsta kvöld skelltum við okkur bara út til að fylla aðeins sítóma magann hans Pálma og fórum svo snemma í rúmið.

Dormið okkar fyrstu 2 næturnar í Hanoi


Daginn eftir héldum við beinustu leið á ,,fatagötuna" sem var í næsta nágrenni.  Við vissum í raun ekki við hverju væri að búast en það kom á daginn að þarna voru öll ljótustu föt heimsins samankomin ástamt öllum mótorhjólunum líka.  Einhvernvegin tókst Pálma samt að finna á sig fína peysu, trefil og húfu en við dömurnar gáfumst fljótt upp á því að leita að einhverju ofur skæslegu og ákváðum bara að skella okkur á það sem virkaði hlýjast!  Við keyptum því báðar alveg agalega...ehemm... áhugaverðar peysur, báðar alveg eins.  Við viljum segja að við höfum alveg séð ljótari peysur en við höfum líka séð fallegri!  Þessar voru ekki heldur alveg í okkar stærð :)  Það er reyndar skondið frá því að segja að á könnunarleiðöngrum okkar um borgina eftir peysukaupin sáum við þónokkrar dömur í eins peysum svo það voru greinilega fleiri sem deildu sömu skoðun og við með ljótu fötin í Hanoi!

Það iðar allt af lífi í Hanoi... systkinin í fataleit :)

Þegar við vorum búin að kaupa hlýju fötin fórum við auðvitað að spranga um bæinn og héldum m.a. áfram rannsóknum okkar á KFC í Asíu.  Eftir að hafa borðað Kenny í Kambódíu og nú tvisvar sinnum í Víetnam erum við farin að hallast að því að Asíubúarnir ættu að halda sig við grjónin.  Við eigum reyndar eftir að kynna okkur þennan göfuga mat í Tælandi og Laos en ég vil koma því á framfæri að til að það gerist mun þurfa að draga mig á hárinu inn á staðinn og neyða ofan í mig maukaðan kjúlla í majonesbaði með sprautu.  (Gígja og Pálmi - þetta er ekki áskorun!)

Jii... svo skæslegar í nýju fötunum! Takið eftir peysunum, húfunum og leðurhönskunum! 


Eftir heilmikið bæjarsprang og smá VÍKINGAFLIPP (sjá myndir) héldum við aftur upp á hostel til að gera okkur sæt og fín en við áttum enn eitt dinner-deitið við GAP hópinn.  Þetta var reyndar allra-síðasta deitið okkar þar sem langflestir héldu heim á leið frá Hanoi, aðeins tvær stelpur sem héldu áfram um Laos líka og tóku þær þá saman við hópinn sem var einum degi á eftir okkur.

VÍKINGAFLEPP með víetnömskum fleppurum...!

Úúú... systkinarifrildi??? Nei... VÍKINGAFLIPP!

VÍKINGA-SKINKU-SPEGLAPÓS-FLIPP!
Víkingaskinkuflippari!!!!


Við hittum hópinn svo á fínasta veitingastað í borginni og fórum svo á smá útstáelsi með liðinu.  Þar lærðum við ýmislegt, t.d. hvernig mútur ganga fyrir sig í þessari borg, en lögreglan röltir víst inn á alla skemmtistaði um 12 leytið og heimtar pening, annars verði lokað.  Ég gerði heiðarlega tilraun til að taka mynd af löggunum en þorði ekki að smella af beint framan í þá (því mig langaði ekki í víetnamskt fangelsi) svo ég þóttist vera að taka mynd af Guðný Gígju en með löggumennina í bakgrunni.  Það sem var nú svolítið skondið við þessa ,,löggumenn" var að þeir voru að  okkar mati sirka 17 ára og í allt of stórum búningum svo þeir minntu svolítið á litla stráka í pabbaleik :)  ((Ok, ætlaði reyndar að setja myndina hér en það þyrfti að lýsa svolítið upp bakgrunnin og trialið á öllum forritum í heiminum er runnið út hjá okkur svo það bíður betri tíma...)

Fordrykkur... skálað í Halida í fyrsta skipti.

Bananasölukonu-víkingaflipp!

Allur hópurinn samankominn í síðasta skipti :)
Maður rétt litur af þessari og þá er hún farin að víkingaflippa yfir kvöldmatnum!


Eftir party-pooperana í löggunni varð kvöldið nú ekki mikið lengra.  Við skelltum okkur þó á einn stað í viðbót, svona rétt aðeins til að klára aðeins úr danstankinum.  Þá var svo komið að kveðjustund fyrir fullt og allt með tilheyrandi kossum og knúsum og loforðum um að vera í sambandi á Facebook sem og tilboðum um fría gistingu hér og þar um heiminn.  Btw, mamma og pabbi, ég er búin að bjóða svona 15 manns að koma og gista hjá okkur hvenær sem er, haha :)

En morguninn eftir lögðum við af stað í mikla svaðilför.  Við höfðum pantað okkur ferð um náttúruundrið Halong Bay á hostelinu okkar.  Við  hefðum svosum átt að vita hvað við vorum að skrá okkur- í þegar túrinn hét: ,,The Rock Hard - Rock Long Tour of Halong Bay" en ég var ekki að búast við alveg svona einbeittu partýi.  Svona til að allir lesendur séu með allt á hreinu ætla ég að útskýra Halong Bay aðeins fyrir lesendum.  Þetta er semsagt flói sem er um 4 klukkustunda akstur austur af Hanoi.  Flóinn er alsettur klettaeyjum sem eru þaktar gróðri en eyjurnar á flóanum sem heitir Tonkin flói, eru um 3000 talsins. Flóinn er réttilega á heimsminjaskrá UNESCO og fannst okkur rosalega fallegt þarna.

Smá brot af fegurðinni og séð yfir ,,sun-deckið" á bátnum okkar.


Eftir 4 tíma rútuferð frá miðbæ Hanoi héldum við um borð í bátinn okkar.  Þar fengu allir káetu en við dömurnar vorum settar saman og Pálmi settur í káetu með kátum Englendingi sem heitir Connor.  Það var svosum allt gott og blessað nema hvað það voru ekki 2 rúm í káetunum heldur tvíbreið rúm með einni stórri sæng:)  Við fengum yndislegan hádegismat þegar við komum í bátinn og svo hófst um 3 tíma sigling út á flóann.  Við trippararnir nýttum tímann til að kúra okkur svolítið eftir takmarkaðan svefn nóttina áður:)

Þá var komið að því að mestu kempurnar hoppuðu í sjóinn.  Báturinn var stöðvaður og allir sem gátu kallað sig menn skelltu sér í sundskýlurnar og létu sig gossa ofan í ískalt vatnið.  Auðvitað lét víkingurinn Pálmi sitt ekki eftir liggja og sýndi sko öðrum bátsverjum hvernig ,,The Icelandic fisherman" afgreiddi málin!  Við dömurnar vorum nú heldur dannaðari á því og stóðum okkur vel á myndavélinni :)

Pálmi kominn í sjóinn.  Auðvitað er hann mjög fallegur en það verður að segjast eins og er að það er umhverfið sem stendur upp úr á þessari mynd! :)

Þegar karlpeningurinn var búinn að þurrka sér var haldið af stað í kajakferð um flóann.  Þeir sem þorðu ekki áttu að vera eftir á bátnum og skúra (nei djók, þeir áttu reyndar að fara í drykkjuleiki) en við þrenningin látum ekki bjóða okkur upp á svoleiðis bull og skelltum okkur í bátana eins og sönnum víkingum sæmir.  Kajakferðin var mjög skemmtileg, við rerum um á flóanum og stoppuðum svo í mjög fallegum helli og príluðum svolítið.  Við urðum alveg rennandi blaut en átökin á árunum komu alveg í veg fyrir að okkur yrði kalt.

Pálmi að klöngrast í hellinum

Útsýnið út um hellismunan

Eftir kajakferðina fórum við í HEITA sturtu! :)  Það var eitthvað sem okkur hafði ekki alveg boðiðst dagana á undan en við höfum verið smá óheppin með gististaði hvað sturturnar varðar.  Eins virðist það vera vandamál í Víetnam að þó að sturtan eigi að vera heit þá er oft ekki hægt að blanda saman heita og kalda vatninu svo sturtan er annaðhvort brennandi heit eða ísköld!  En já, sturturnar á bátnum voru því kærkomnar en þær virkuðu alveg hreint ágætlega.  Þá var haldið í kvöldmat sem var í einu orði sagt frábær.  Eftir matinn fór svo partýið í gang með skipulögðum drykkjuleikjum og stuði.  Þá var auðvitað dansað svolítið og þvíumlíkt.

Frekar stór drykkjuleikur hér á ferð, annað eins borð við hliðiná sem náðist ekki inn í rammann.

VÍKINGA- HVAÐ?  VÍKINGA FLIPP!


Annars held ég að það sé tími til að ég segi ykkur frá Rumputuskunum!  Þannig er mál með vexti að á ferðalagi okkar um Nam höfðum við nokkrum sinnum rekið augun í mjög hárprúða unga menn (sjá myndir).  Okkur þótti það svo auðvitað mikil tilviljun þegar við lentum í sama túr og þeir á Halong Bay.  Fyrst um sinn leist okkur ekkert á blikuna þar sem þeir opnuðu fyrsta bjórinn í rútunni á leiðinni, sirka kl 8 um morguninn!  Þeir voru því orðnir mjög hressir þegar liðið var á bátsferðina og höfðu stór orð um komandi drykkju þeirra um kvöldið.  Systkinin komu því með þetta frábæra nafn á hópinn, Rumputuskarnir!  En þegar leið á kvöldið kom í ljós að þetta voru bara indælis drengir frá Ástralíu.  Þeir reyndu að fá Pálma til að slást í hópinn og fá sér eins hárgreiðslu, tóku meira að segja upp skærin, en augnarráðið sem Guðný Gígja sendi Pálma á þessari stundu stöðvaði alveg þessar hugsanir í fæðingu.  (Með augnarráðinu fylgdu einnig þau stóru orð að hún myndi hætta að vera systir hans ef hann myndi svo mikið sem láta sig dreyma....!)

Þetta er í raun besta myndin sem við eigum af hárprýðinni


Rumputuskarnir að vera rumputuskar! 



En jæja, langstærstur hluti mannskapsins var kominn í rúmið um 1 leytið enda ræs kl 8 morguninn eftir.  Morgunverður og góð samverustund þar sem rifjuð voru upp atvik gærkvöldsins.  Samkvæmt Pálma var kúrið með Connor, káta Englendingnum, bara alls ekki slæmt. Við héldum til baka að landi glöð í bragði eftir frábæra bátsferð og komum okkur vel fyrir í rútunni, með uppblásna púða, og gerðum okkur til fyrir að sofa værum blundi næstu 4 tímana í rútunni.  En Adam var ekki lengi í paradís!  Engir aðrir en Rumputuskarnir komu sér fyrir allt í kringum okkur í rútunni, meira en til í áframhaldandi partý með víkingunum! Jeminn, það var lítið um svefn í rútunni (nema auðvitað hjá Guðný Gígju sem sofnar hvenær sem er, hvar sem er) en skemmtilegir 4 klukkutímar samt sem áður:)  Ég er búin að komast að því að ég er alveg eins og mamma mín (sem verður aldrei góð fyllibytta samkvæmt pabba mínum) því eitthvað svona eins og Rumputuskarnir voru að gera, drekka bjór stanslaust í 3 daga, þykir mér jafn óspennandi og að gerast næsti Hannibal Lechter, en sinn er víst siður í landi hverju.

Það þarf víst engan að undra að eftir þessa miklu svaðilför áttum við bara rólegt kvöld á hostelinu.  Við vorum komin í annað herbergi sem var meira kósý en hitt og háttuðum bara snemma eftir góðan kvöldmat.  Við áttum nefnilega flug frá Hanoi til Vientiane, höfuðborgar Laos, snemma morguninn eftir.

Það mætti alls ekki segja að þetta flug verði lengi í minnum haft þar sem við vorum steinrotuð aður en flugstjórinn svo mikið sem bakkaði frá.  Það er annars gaman frá því að segja að þetta flug var um klukkutími sem er mjög indælt í samanburði við 30 tíma rútuferðina sem annars hefði beðið okkar. Mmmm, hvað ég sé alls ekki eftir peningunum í þetta!  Við komuna til Vientiane upphófst svo þessi venjulega landamærarútína sem við erum nú orðin mjög svo sjóuð í.  Fylla út umsókn fyrir visa, fylla út komuspjald, taka upp dollarana og standa í röðum.  Nýja laoska visað okkar er ógeðslega flott en því miður tóku landamæraverðirnir víetnamska visað okkar úr vegabréfunum og við söknum þess mjög mikið þar sem það var alveg geggjað kúl! :)

En - ætli þetta sé ekki orðið nóg í bili!  Við vitum að þið eruð öll að stelast til að kíkja á bloggið okkar þegar þið ættuð að vera að vinna eða læra, svo við segjum bara - komið ykkur aftur að verki :)
Við lofum að skella inn áframhaldandi ferðasögu sem fyrst - en því miður erum við ekki búin að vera með þráðlaust net þar sem við gistum hér í Laos, svo það verður víst aðeins meiri bið heldur en venjulega.

Því miður náðum við ekki að setja inn nærriþví jafnmargar myndir í þetta blogg og við hefðum viljað... tengingin hérna er MJÖG hæg og ég er búin að hárreita mig í klukkutíma núna.  Við ætlum að bæta við um leið og við getum :)

Ykkar einlæg,
Klara :-)

3 comments:

  1. Skemmtilegt blogg! Mikið er ég fegin að þið eruð Víkingaflipparar en ekki Rumputuskar ;-)
    Maja mamma

    ReplyDelete
  2. Rosalega gaman að lesa þetta hjá ykkur, eins og alltaf.
    En.... HVENÆR KOMIÐI HEIMMMMMMMMMMMMM???? Reyndar er þessi mánuður sem þið eruð búin að vera í burtu, búinn að líða hratt...!
    Ógilla ógilla mikið sakni sakn:*
    Kv.Svanhvít

    ReplyDelete
  3. Reglulega ömurleg ferð hjá ykkur finnst mér. Best að halda áfram að vinna algerlega öfundarlaust;)

    ReplyDelete